No Site - Enginn staður - opening in Hafnarborg center of culture and fine art.
There is only an Icelandic text at the moment, english will be posted a little bit later - sorry about that.
Á sýningunni Enginn staður eru verk átta listamanna sem allir eru búsettir á Íslandi og beina sjónum sínum að íslenskri náttúru. Þau eru Björn Árnason, Claudia Hausfeld, Daniel Reuter, Edda Fransiska Kjarval, Ingvar Högni Ragnarsson, Katrín Elvarsdóttir, Pétur Thomsen og Stuart Richardson og eiga það öll sameiginlegt að nota ljósmyndina sem miðil. Verkin eru öll unnin á árunum 2009 – 2015. Sýningarstjórar eru Áslaug Íris Friðjónsdóttir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.
Náttúra og landslag hafa löngum verið umfjöllunarefni listamanna. Meðvitað eða ómeðvitað hefur landið verið upphafið með því að beina sjónum að stórbrotnu og nánast háleitu landslagi þar sem þekkt kennileiti og sögufrægir staðir eru áberandi. Hvað þetta varðar er ljósmyndin engin undatekning og undanfarin ár hefur sá miðill gengt mikilvægu hlutverki við ímyndasköpun landsins einkum þegar litið er til ferðaþjónustu. Hvarvetna sjáum við landslagsmyndir af leiftrandi norðurljósum, stórbrotnum jöklum, spegilsléttum vötnum og litríkum fjöllum.
Á sýningunni Enginn staður er horft til verka listamanna sem líta landið öðum augum og leitast við að fanga fegurðina í þeim augnablikum sem við veitum oft ekki eftirtekt. Þau birta sýn á landið og náttúruna sem mótuð er af viðhorfum 21. aldar þegar ógnir beinast að náttúru landsins og vitund manna um náttúruvernd fer vaxandi. Með greiðara aðgengi almennings að náttúrunni og óbyggðum landsins og aukinni ferðamennsku minnkar framandleiki landsins sem kallar fram nýjar listrænar nálganir. Íslensk náttúra er vissulega stórfengleg en hún er líka eftirtektarverð í öðru samhengi.
Þegar landslagsmálverk frumkvöðla íslenskarar myndlistar eru skoðuð er áberandi að ávallt er stillt veður og helst sólskin. Þessi ímynd er talsvert fjarri íslenskum raunveruleika, enda slæmt veður og óblítt landslag eitt helsta einkenni íslenskrar náttúru. Þetta má túlka sem upphefð náttúrunnar. Veðurleysið býr til fjarlægð á milli áhorfandans og landslagsins sem undirstrikar aðskilnað manns og náttúru. Veður, regn og vindar, brúar þetta bil. Það fyllir upp í tómið, getur haft áhrif á sjónskyn okkar og kallað fram sjónblekkingar. Upplifun okkar af náttúrunni bjagast, landið hliðrast til og verður óefniskennt. Þá tekur við ímyndunarafl okkar og fyrirfram gefin þekking. Við fyllum í eyðurnar og klárum myndina til þess að skilja hana til fulls. Oft snúum við okkur svo að einhverju öðru og yfirgefum sýnina í fullvissu þess að ekkert meira sé að sjá. Hér staldra listamenn sýningarinnar við. Þeir horfa lengur, gefa óvissu og vangaveltum framhaldslíf í ljósmyndinni. Þeir horfast í augu við ófullkomna náttúruna, hver með sínum hætti, leitast ekki við komast að niðurstöðu en leyfa myndinni að standa eins og hún er.
Sýningin Enginn staður endurspeglar okkar innra og ytra landslag. Listamennirnir horfa á náttúruna hver með sínum augum og verkin kalla fram hjá hverjum og einum meðvitund um staði sem koma kunnuglega fyrir sjónir. Einkenni í landslaginu hafa skírskotanir og tengingar við staði sem við þekkjum eða vísa í persónulegar upplifanir og minningar. Þetta er landslagið sem er okkur öllum svo kunnugt, myndin sem við sjáum þegar við lítum út um bílglugga á ferð okkar um landið, staðirnir sem bera engin nöfn, umhverfið sem við sjáum á milli merkilegu áfangastaðanna. Við þekkjum birtuna, gulnað grasið, sandana og snjóbreiðurnar, hraunið, grámann og rigninguna sem máir burtu útlínur fjalla og kennileita.
Það má ekki skilja það sem svo að sýningin taki afstöðu gegn “merkilegum” stöðum í landslaginu né stórbrotinni náttúru heldur er sýningin frekar lofgjörð um alla “ómerkilegu” staðina og þá lágstemmdu náttúru sem okkur stundum yfirsést.
Verk listamannanna hafa ólíka hugmyndalega nálgun við landið og afstöðu mannsins til þess. Claudia Hausfeld, Katrín Elvarsdóttir og Pétur Thomsen horfa með rannsakandi hætti á náttúruna. Claudia myndar náin og oft á tíðum persónuleg tengsl við viðfangsefni sín, Katrín skoðar hvernig verksummerki mannsins mætir náttúrunni og Pétur gerir ítarlega rannsókn á afmörkuðu svæði í sínu nærumhverfi. Edda Fransiska Kjarval og Ingvar Högni Ragnarsson velja myndefni sín af ólíkum ástæðum, Edda eftir tilfinningu í ferð sinni um landið en Ingvar finnur staði þar sem löngu gleymdir eða leyndir sögulegir atburðir hafa átt sér stað. Björn Árnason virðir fyrir sér víðáttuna og fangar um leið veður og birtu. Í öðrum verkum horfir hann niður fyrir sig og grandskoðar jörðina sem hann stendur á.Daniel Reuter og Stuart Richardson velja sér afmörkuð svæði úr landslaginu. Með því að útiloka liti undirstrikar Daniel myndbyggingu, form og áferðir í verkum sínum á meðan Stuart horfir yfirvegað og úr fjarlægð yfir landið og skoðar hvernig það tekur breytingum yfir tíma.
Að taka ljósmynd felur í sér ákvörðun. Ákveðið val fer fram í huga listamannsins. Enginn staður hlýtur þar af leiðandi alltaf að vera nákvæmlega “þessi” staður. Þó það sé kannski einmitt vegna þess að hann gæti verið enginn staður.